Hafa samband

Símboðar og tíkallasímar

28.10.2025

"Þegar ég höf störf hjá Johan Rönning þá var reykt út um allt fyrirtæki og menn voru með öskubakka á borðum og það þótti ekkert tiltökumál að troða í pípu og fýra upp í henni þótt viðskiptavinur kæmi inn til að tala við starfsmann - það þótti bara eðlilegt að fá sér sígó og ræða málin," segir Finnur G. Rósenbergsson viðskiptastjóri Johan Rönning en Finnur hóf störf sem lagermaður hjá fyrirtækinu fyrir 35 árum. Og til að átta sig á tíðarandanum og tækninni á þessum tíma þá lýsir Finnur hér tölvubúnaðinum sem þótti samt mikil framþróun. „VIð notuðum þá IBM system 36 og það var þá öll Sundaborgin sem notaði þær,“ segir Finnur en tölvan sjálf var á stærð við frystikistu og við hana voru tengdir tölvuskjáir með grænum stöfum. Það voru engar mýs til að hreyfa bendil - það var bara notast við lyklaborðið til að slá inn skipanir á græna skjáinn. „Og prentarinn var nálaprentari á stærð við Ikeaskrifborð og úr honum komu röndótt blöð,“ segir Finnur brosandi.

Á þessum árum voru engir farsímar. „Þá var bara hringt í heimasímann og ef maður var heima þá brást maður við og reddaði málum ef það var einhvern neyð, til dæmis að mæla strengi eða leysa úr einhverju sem hafði farið úrskeiðis. Svo komu símboðarnir sem virkuðu þannig að það var hringt í símboðann og þá fékk maður boð og símanúmerið sem var hringt úr birtist á skjá og þá þurfti maður að finna sér tíkallasíma og hringja til baka,“ segir Finnur og lítur á snjallsímann sinn sem hefur gefið frá sér ýmis hljóð á meðan á þessu spjalli stendur. „Farsímarnir komu mörgum árum seinna og nú er þetta þannig að það á allt að gerast á núll einni,“ segir hann með símann í hendinni og brosir.

Finnur hóf störf árið 1991 og hann segir að á þeim tíma hafi fyrirtækið verið byggt upp sem heildsölugrunnur. "Á þessum tíma var tollvörugeymslan á Héðinsgötu og þar var stór lager sem tollaður var eftir hendinni eins og sagt var. Fljótlega eftir að ég byrjaði hérna fórum við að skoða kostnaðinn við að nota tollvörugeymsluna og flækjustigið í kringum hana. Við hættum því og byggðum vöruskemmu til þess að lækka kostnað og auka þjónustustigið við viðskiptavininn. Ef viðskiptavinur þurfti að fá vöru þá var hún í tollvörugeymslunni og það gat tekið 2-3 daga að nálgast hana,“ segir Finnur en með vörugeymslunni varð allur hraði og meðferð vörunnar skilvirkari. „Við vorum að breyta þessum heildsöluhugsunarhætti yfir í þjónustuhugsunarháttinn þannig að viðskiptavinurinn fengi þá vöru sem hann þurfti á þeim tíma sem hann þurfti. Allt þetta flæði og allir þessir ferlar - það var það sem við vorum alltaf að reyna að bæta dag frá degi og erum vonandi ennþá að reyna að bæta dag frá degi."

Hafandi starfað í 35 ár hjá fyrirtækinu hlýtur að benda til að Finni hafi liðið vel í vinnunni. „Já, já en það hafa komið upp allskonar óveðursský en þá bara gyrðir maður sig í brók og heldur áfram,“ segir Finnur og bætir við. "Starf er aldrei verra heldur en maður leyfir því að vera. Einn fyrrum vinnufélagi sagði sem er nú reyndar fallin frá; að ef mér líður illa í vinnunni þá geri ég eitthvað í því að breyta því - þá laga ég umhverfið og laga það sem er að. Og það er einmitt það sem við erum að reyna að gera daglega - að láta fólki líða vel í vinnunni."