
Mátti ekki hefja störf á mánudegi
1.9.2025

„Það var að koma haust og ég man að ég mátti ekki byrja að vinna á mánudegi. Þetta var hjátrú og ég held að þetta hafi verið komið frá Johanni Rönning gamla sjálfum,“ segir Sigurður Óskarsson rafvirki sem hóf störf hjá Johan Rönning árið 1970 en á þeim árum var verslun og lager fyrirtækisins í Skipholtinu. Í bragga við Öskjuhlíðina var lager fyrir rafstrengi og kefli og þangað var Sigurður sendur fyrsta daginn sem hann segir eftirminnilegan. „Þetta var dálítið frumstætt og erfitt að eiga við kaplana því þegar við vorum að afgreiða rafverktakana þá vildu þeir strengi í ákveðinni bútalengd. Ef búturinn var langur þá þurftum við að draga strenginn yfir götuna. Við þurftum að sæta færis því það var umferð þó hún væri lítil og við þurftum að vera mjög fljótir að ná mælingunni og skera á réttum stað. Þetta var kapphlaup við tímann og við þurftum líka að velja rétta tímann svo að við værum ekki á mesta annatímanum að mæla strengi. Svo tókum við þennan bút, rúlluðum honum upp og settum inn í bíl og svo var hann keyrður upp í Skipholt,“ segir Sigurður og brosir.
Í tæp 50 ár starfaði Sigurður hjá Johan Rönning og hann segir þjónustu við viðskiptavini alltaf hafa skipt miklu máli. „Maður varð að vera lipur og kurteis og kunna sig en jafnframt fljótur að koma sér inní að kunna á vöruna sem maður var að selja og það byggði á fagþekkingu. Maður varð að þjóna kúnnanum og vita hvað maður var að selja því maður var ekki að selja sykur - maður var að selja tæknivöru,“ segir Sigurður en þegar hann hóf störf hjá fyrirtækinu var stofnandinn Johan Rönning með skrifstofu í Skipholtinu. „Hann kom og tók í hendina á mér og heilsaði mér. Hann var sérstakur karakter og það var alveg óskaplega gaman að vera með honum. Mér leið strax vel þarna,“ segir Sigurður að lokum.