
„Maður tók sér aldrei frí þennan dag því manni hlakkaði mjög til veislunnar“
4.12.2025

-segir Birna Gunnarsdóttir sem starfaði hjá Johan Rönning í 33 ár og kom að undirbúningi fyrstu hangikjötsveislu fyrirtækisins.
„Boga datt þetta fyrst í hug og hann talar við Harald og svo er ekkert annað en það að Halli kemur til mín og segir; við ætlum að halda hangikjötsveislu og bjóða rafvirkjunum svona rétt fyrir jólin. Þá vorum við uppi í Sundaborg og þar var enginn stór salur svo við höfðum borðin með matnum í anddyrinu. Við vorum með pappadiska og hnífapör úr plasti og ég man sérstaklega eftir hvað hnífapörin brotnuðu auðveldlega og ég man að ég hugsaði með mér að á næsta ári ætlaði ég að finna betri hnífapör,“ segir Birna Gunnarsdóttir sem starfaði hjá Johan Rönning í 33 ár og var oft kölluð mamma í vinnuni. „Strákarnir byrjuðu á þessu að öskra mamma og það eiginlega festist við mig. Mér fannst þetta bara hlýtt og notalegt og ég ansaði alltaf,“ segir Birna og hlær.
Hangikjötsveislan varð frá byrjun vinsæl og gestum hefur fjölgað ár frá ári. „Í fyrsta skiptið var rafvirkjum bara boðið en svo fóru menn úr öllum byggingageiranum að mæta og það var svo gaman að sjá rafvirkjana koma og hitta skólafélagana sem þeir höfðu kannski ekki hitt lengi - þetta varð svo skemmtilegt og þeir töluðu svo mikið um þetta eftirá þegar ég hitti þá. Þetta var þeim líka miklvægt að hittast svona,“ segir Birna og spurð hvort þeir hafi klætt sig uppá fyrir veisluna svarar hún. „Þeir voru nú bara í vinnugallanum og ekkert að dekka sig upp,“ segir hún og hlær.
Birna segir starfsmannaandann í fyrirtækinu alla tíð verið góðan og sérstaklega jólaandann. „Í byrjun desember fór maður að skreyta og draga fram jólatréð og gera húsið jólalegt. Svo var alltaf eitthvað gert fyrir starfsfólkið fyrir jólin og við fórum altlaf í jólahlaðborð,“ segir Birna og rifjar upp tímann þegar starfsfólkið sá um hangikjötsveisluna. „Við keyptum allt kjötið í Nóatúni og stundum var þetta klúður því við keyptum of lítið og þá þurfti einhver að fara í búðina til að kaupa meira,“ segir hún hlægjandi en í dag heldur veisluþjónusta utan um verkefnið. „Þeir sjá um að sjóða hangikjötið og búa til uppstúf og ég sá bara um að kaupa baunirnar og laufabrauðið. Það var alltaf þannig að allir starfsmenn voru tilbúnir að koma og hjálpa til við að undirbúa veisluna. Þetta bitnaði ekkert á mér einni - það bitnaði alveg eins á hinum sem fóru úr sínu starfi til að hjálpa til.“
„Maður tók sér aldrei frí þennan dag því manni hlakkaði mjög til veislunnar,“ segir Birna og þrátt fyrir að hafa hætt að vinna hjá fyritækinu fyrir nokkrum árum mætir hún í hina árlegu hangikjötsveislu. „Við gamla starfsliðið mætum alltaf seinna í veisluna og okkur þykir mjög gaman að setjast niður með starfsfólkinu,“ segir Birna en fyrrum starfsmenn Johan Rönning halda enn sambandi. „Maður heyrir í þessum konum reglulega sem maður vann með. Við vitum alltaf af hvor annarri,“ segir Birna og bætir við. „Þetta er bara svona fyrirtæki sem hélt vel utan um starfsfólkið sitt alla tíð og á meðan að Jón heitinn átti það þá var það alveg eins. Ég man að þegar Bogi kaupir fyrirtækið þá var maður skjálfandi á beinunum um hvað yrði en það var bara ennþá betur haldið utan um starfsmennina,“ segir Birna og spurð hvort hún ætli að mæta í veisluna í ár svarar hún; „Já ég ætla mæta og þá finnst manni að það séu að koma jól,“ segir hún brosandi að lokum.